laugardagur, mars 31, 2007

Lægð

Ég er eitthvað svo agalega framtakslaus og innímér þessa dagana. Langar mest til að slökkva á símanum, logga mig út af msn, leggjast undir sæng og borða kökudeig í öll mál.
Vera bara alein og möglulega ekki yrða á neinn eins lengi og ég kemst upp með það.

Kannski páskarnir bjargi mér upp úr þessu fönki og grafi upp hressleikan sem mig rámar í að sé þarna einhversstaðar undir niðri.

fimmtudagur, mars 29, 2007

Þessi tími ársins...eina ferðina enn.

Mér fannst við hæfi að kynna mér framlag þeirra Svisslendinga í Eurovision þetta árið, þar sem að maður er nú svona semi-swissari þessa dagana. Sko, nú er ég ekki mikill aðdáandi rauðhærða power-rokkarans, en Sviss...ææææ. Ég veit ekki hvað skal segja. Óður til vampíranna settur í svona hressandi næntís danssmella búning. Hvað finnst ykkur? Ætlar Sviss að taka þetta í ár?

en þessi er alveg eðal. Svíarnir sko. Þeir klikka ekki :)

sunnudagur, mars 25, 2007

Annar í páskum!



Björk í Laugardalshöll!

Og ég verð einhversstaðar á Ítalíu að væflast. Öfunda ykkur klakafólk að hafa tækifæri til að kíkja í höllina. Ætla nú samt ekki að kvarta of mikið þar sem ég mun vera að sleikja sólina á
Gardavatni og liggja þar í leti og vellystingum alla páskana.
Blasta bara Björkina á Poddaranum í staðinn og iða svo í skinninu eftir útgáfu Volta í maí.

laugardagur, mars 24, 2007

miðvikudagur, mars 21, 2007

Ferskt blóð

Það er fátt skemmtilegra en að kynna sig fyrir nýju fólki hér.
Ég fæ alltaf jafn innilega "ég er svo hissa" viðbrögð. Eins og Ísland væri það seinasta í veröldinni sem fólk hefði búist við að heyra. Ég gæti sagst vera frá Atlantis og ég fengi ekki jafn sterk viðbrögð.

Eftir miður skemmtilega reynslu mína af hópavinnu síðustu annar, þar sem á tímabili virtist sem önnur hver manneskja væri alveg vel trufluð á geði og óeðlilega tæp á taugum, ákvað ég að þessi mistök skildi ég ekki endurtaka á nýrri önn. Ég ýki nú kannski smá. Þetta var bara einn hópur sem var í ruglinu. Hinir voru fínir. En ég er semsagt búin að koma mér rækilega fyrir í nýjum og huggulegum hópum með nýju og huggulegu fólki. Engin öskur, engin frekju eða dramaköst, enginn með mikilmennskubrjálæði rekandi aðra hópameðlimi heim til sín og enginn að beita kúgunaraðferðum með hótunum um að segja sig úr hópnum.......uuuummm eða ekki ennþá allavega, eehehe. Sjáum til eftir tólf vikur af stanslausri samveru undir stanslausu álagi, hvernig staðan verður þá.

En maður lifir og lærir. Það kom líka berlega í ljós núna þegar þetta hópa prósess fór í gang á ný að sumir áttu í heldur meira basli skulum við segja, með að finna sér hóp, heldur en aðrir. Snýst bara um að vera næs. Engin rocket science að verki hér.
What comes around goes around, er það ekki alltaf þannig?

laugardagur, mars 17, 2007

Cherry blossoms



Hef ég eitthvað minnst á það hvað ég elska veðurfarið hér?

Mmmm....vor. Loving it!

miðvikudagur, mars 14, 2007

Family Guy - Best of Stewie

Stewie Griffin...gotta love him :)

þriðjudagur, mars 13, 2007

AAAAAA!

Það er strax byrjað aftur! Ekki nógu margar klukkustundir í sólarhringnum!! What to do, what to do?!

miðvikudagur, mars 07, 2007

Limbó

Jæja, nú er farið að styttast ansi hressilega í að næsta önn hefjist. Meira að segja búið að skikka okkur til að koma okkur í hópa fyrir eitt fagið og vera tilbúin með fyrirlestur í fyrsta tímanum. Þannig litla fríið dó eiginlega á því augnabliki. Ég náði nú samt að slaka ansi vel á. Búin að liggja yfir "Heroes", sem ég var heldur betur búin að spara mér á harða disknum mínum góða og svo bara sofa, lesa rusltímarit og borða súkkulaði og fransbrauð. Huggulegt ei? Horfði svo loks á Babel um daginn. Úff það er nú átakanlega myndin. En svakalega góð. Mæli með henni. Næstu helgi er svo inni í myndinni að skreppa til Feneyja ef veðrið verður gott þar. Spennandi að sjá hvort verður af því. Reikna með agalegum skemmtilegheitum þar!

En limbóið heldur áfram meðan ég bíð eftir að þrjár síðustu einkunnirnar berist. Tvær eru komnar nú þegar og gekk líka svona ljómandi vel! Ég get þetta bara vel!

Nú þarf maður bara að fara að spíta í lófana fyrir næstu önn. Þá bíða mín heldur meira spennandi fög, að mínu mati. Kjarnafögin mín samanstanda af Intergrated marketing communication, Issues and Crisis management, Corporate identity and image, Sponsoring and event management og Investors relations. Svo tók ég Public affairs og Consumer behavior í val. Þannig við erum að tala um sjö próf í júlí í fjörtíu stiga hitanum. Ef ykkur fannst ég væla núna, bíðið þá bara, ég hef sko ekki náð toppnum ennþá :)

mánudagur, mars 05, 2007

Sögur af skósmið II



Ég gleymdi alltaf að minnast á endalokin á skósmiðsævintýrinu mínu. Ef endi skildi þá kalla.
Það tók fjórar ferðir þangað niður eftir, þangað til þetta fór að virka. Eða svona semi virka. Gæinn var farinn að fá flótta augnaráð þegar hann sá mig nálgast. Hann virtist ekkert skilja afhverju bölvaður lykillinn var svona erfiður og pússaði og pússaði, bætti nýjum punktum hér og þar í hann, en ekkert var nógu gott. Svo í fjórða skiptið fullvissaði hann mig um að nú væri þetta komið. Eða svoleiðis skildi ég hann allavega.

En hann virkaði nú samt ekki þegar ég kom heim það skiptið. Ég lagði ekki í það að fara aftur til hans af ótta við að hann mundi bara bresta í grát, eða að ég mundi slá hann, svo ég fór að æfa mig. Komst að því að þarf að snúa lyklinum afar varlega og af mikilli nákvæmni, svo hann hleypi mér heim til mín.
Hefði kannski átt að hlusta á Viðar og fara til lyklasmiðs! Haha, grínistinn sá arna.

Núna stend ég alltaf úti í nokkrar mínútur og vinn mikla nákvæmnisvinnu í hvert sinn sem ég vil komast inn. Getur verið pínu óþægilegt, sérstaklega þegar nágrannarnir eru á vappi á sama tíma. Gamla ítalska konan við hliðina á, er ofsalega mikið fyrir að spjalla við mig. Hitti hana oft í lyftunni og henni er nákvæmlega sama þótt ég segi ekki neitt. Aldrei. Ég reyni ekki einu sinni að útskýra á ensku að ég tali ekki ítölsku, því að núna er það eiginlega orðið of seint. Ég bara brosi og kinka kolli. Ég er búin að hlusta á hana of oft og láta eins og við séum að eiga í samræðum að það yrði hálf vandræðalegt ef ég myndi eyðileggja það fyrir henni núna. Betra að hún haldi bara að ég sé ítali sem þjáist af þroskahömlun.

En ég veit ekki um neinn sem á flottari lykla!
Bíttar engu þótt þeir virki ekki. Snýst allt um kúlið.

föstudagur, mars 02, 2007

Og anda...

Hér er ég í miðjum prófalestri. Takið eftir glampanum í augunum og lífsgleðinni sem beinlínis blindar mann:



Þessi skratti var ástæðan:



Að vera búinn á því hefur öðlast alveg glænýja merkingu fyrir mér.

Líður eins og ég hafi rétt í þessu verið að ljúka maraþonhlaupi í kringum heiminn. Nema í stað þess að hlaupa tók ég sundið á þetta og í stað þess að vera með hausinn uppúr var ég í kafi. Bólakafi. Engar froskalappir engin sundgleraugu plús að ég er bara nýýýbyrjuð að læra að synda!

Fjögur próf á fimm dögum og svo hryllingsprófið í lokin með heila fjóra daga í upplestrarfrí. Done. Var farin að hallast að því að ég væri komin í helst til djúpa laug að skella mér svona í master í viðskiptafræði úr sálfræðinni, en sjáum til.
Nú er það bara taumlaus gleði framundan....allavega þar til einkunnir koma í hús.